EMDR

Öll verðum við fyrir einhvers konar áföllum í lífinu og það er misjafnt hversu stór þau eru og hvaða áhrif þau hafa á okkur.  Hugtakið áfall getur því  náð yfir ansi margt. Náttúruhamfarir geta til dæmis verið dæmi um stórt áfall sem getur mögulega leitt af sér áfallastreituröskun. Einnig geta slys, ofbeldi, misnotkun, og annað verið dæmi um erfið áföll, hvort sem einstaklingurinn lendir í því sjálfur, verður vitni að slíkum atburði eða einhver nákominn honum lendir í slíku áfalli. Svo eru til “lítil áföll” sem geta setið í okkur í langan tíma og halda áfram að valda okkur vanlíðan þegar við hugsum um þau. Dæmi um slík áföll eru til dæmis erfið samskipti við einhvern, niðurlæging, einelti, erfiðleikar í uppvexti, höfnun og fleira.

EMDR áfallameðferð (http://www.emdr.is) er ein tegund meðferðar við áföllum. Hún var þróuð til að vinna úr áfallastreituröskun og er nú vel viðurkennd meðferð við slíkri greiningu.

Sjá stutt vídeó um hvernig EMDR virkar.

EMDR sameinar ýmsar meðferðarnálganir, svo sem hugræna atferlismeðferð, dýnamíska meðferð, interpersonal meðferð, líkamsmiðaða (body centered) og fleiri. Meðferðin hjálpar einstaklingnum að skrá áfallið á annan hátt en áður, enda sýna virknimyndir af heilanum fyrir úrvinnslu að þegar einstaklingurinn hugsar um áfallið er virknin fyrst og fremst í öðru heilahvelinu í kjarna sem kallast mandla/möndlungur (amygdala).

Þegar einstaklingurinn hugsar um áfallið eftir EMDR úrvinnslu er virknin komin í bæði heilahvel og orðin dreifð um þau. Jafnframt upplifir einstaklingurinn ekki lengur nein eða takmörkuð tilfinningaleg eða líkamleg óþægindi við að hugsa um áfallið og er viðhorf hans til sjálfs sín orðið breytt til hins betra. Oft gerist þetta á einu til þremur viðtölum. Flestir upplifa nýtt innsæi í líf sitt og upplifa að þær breytingar sem verða í hugsun og hegðun í kjölfarið séu jákvæðar.

Þrátt fyrir að meðferðin hafi mest verið rannsökuð með tilliti til áfallastreituröskunar gagnast hún einnig til að vinna með minni áföll.

Í EMDR er unnið með sjónræna upplifun viðkomandi á áfallinu, neikvæð áhrif á sjálfsmyndina, tilfinningaleg áhrif og líkamlega upplifun í tengslum við áfallið. Þegar úrvinnslu er lokið hefur sjónræna upplifunin ekki lengur neikvæð áhrif á einstaklinginn og oft virðist “myndin” breytast, fjarlægjast eða dofna. Neikvæð áhrif á sjálfsmyndina eru farin og í stað þeirra sér viðkomandi sig í jákvæðara ljósi. Engin spenna eða stífleiki kemur lengur í líkamann þegar hugsað er um áfallið og óþægilegar tilfinningar tengdar áfallinu eru afgreiddar. Í stað þeirra situr oft töluverð líkamleg vellíðan eftir.

EMDR getur virkað vel fyrir einstaklinga sem hafa lent í mörgum áföllum. Stundum er þó hjálplegt að blanda fleiri meðferðarinngripum inn í meðferðina.

Hægt er að lesa nánar um EMDR inni á http://www.emdr.is og http://www.emdr.com og http://www.emdria.org

Hægt er að panta tíma með því að hringja í 866-0110 eða með því að senda tölvupóst á netfangið salarafl@gmail.com