Samskipti

Á hverjum degi eigum við samskipti við aðra og okkur sjálf. Ef við erum passíf í samskiptum getur það orðið til þess að aðrir taka illa mark á okkur, við segjum öðrum ekki frá okkar skoðunum og/eða vilja, og aðrir geta mögulega notfært sér okkur. Ef við erum aggressíf í samskiptum getur verið að annað fólk forðist okkur, tipli á tánum í kringum okkur og/eða við erum stöðugt að lenda í uppákomum við aðra.

Í nánum samböndum skiptir miklu máli að geta átt góð samskipti til að fólki líði vel. Það þarf að vera geta til að hlusta, tjá sig, virða skoðanir annarra og koma sínum eigin á framfæri á viðeigandi hátt.

Gyða hefur haldið fyrirlestra um samskipti, samskiptamynstur og ákveðniþjálfun fyrir ýmiskonar félög og fyrirtæki. Gyða býður upp á stjórnendaráðgjöf þar sem iðulega er tekið á samskiptum við undirmenn, samstarfsmenn og aðra.

Í pararáðgjöf er ein aðaláherslan á samskipti; að fólk læri að tala saman, læri að rífast eðlilega og taka ákvarðanir með hagsmuni beggja að leiðarljósi. Hver þekkir ekki svona samræður þar sem A segir við B: “þú hlustar aldrei á mig”! og B svarar: “en þú ert alltaf tuðandi”! og A svarar: “það er útaf því að þú ert aldrei til staðar fyrir mig þegar ég þarf á þér að halda”! og B segir þá: “sko, tuð, tuð, tuð”! og svo framvegis. Við köllum þetta “tröppugang”, það er farið upp hverja tröppuna á fætur annarri, hvergi staldrað við og engin mál leyst. Þannig fær hvorugur aðilinn skilning fyrir sínum málstað. Hér þarf að staldra við, taka eitt mál í einu, byrja á muninum á þú og ég setningum, og nauðsyn þess að skilja hvað hvor aðili fyrir sig er að reyna að tjá.

Einnig er algengt hjá pörum að annar eða báðir aðilar heyri allt annað en það sem sagt er. Þá er lykilatriði að læra að hlusta og tékka á því hvort innihald þess sem sagt var hafi verið rétt skilið. Þetta er til dæmis hægt með því að læra svokallaða speglun. Pör sem koma í viðtöl geta átt von á því að fara í samskiptaæfingar í viðtölum og þurfa að æfa sig heima, koma undirbúin í viðtöl með upplýsingar um nýleg rifrildi og mál sem leystust vel.

Stuðst er við Emotion Focused Couples Therapy sem meðferðarnálgun í paraviðtölum.  Slík nálgun hefur sýnt góðan árangur í rannsóknum.

Hluti af allri meðferðarvinnu með einstaklinga er að skoða líka hvað skjólstæðingurinn er að segja við sjálfan sig. Þegar okkur líður illa er okkur hættara við neikvæðu sjálfstali og niðurrifi. Ef þörf krefur er hægt að nýta hugræna atferlismeðferð til að skoða hversu vel þessar neikvæðu hugsanir eða neikvæða sjálfstal eru byggðar á raunveruleikanum og þá eru kenndar aðferðir til að svara þeim. Ef hugræn atferlismeðferð hentar viðkomandi ekki, eru aðrar aðferðir til.

Gyða er ekki að taka pör í pararáðgjöf lengur, nema ráðgjöfin hafi fyrst og fremst með ófrjósemi að gera eða pörin hafi verið áður hjá henni.  Aldís tekur paraviðtöl.  Guðrún Soffía er með ráðgjöf til foreldra vegna vanda barna.

Hægt er að panta tíma með því að hringja í 866-0110 eða með því að senda tölvupóst á netfangið salarafl@gmail.com